FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR


Maríuerla

Fræðiheiti: Motacilla alba.

Ætt: Erluætt (Motacillidae).

Einkenni: Fuglinn er nokkuð auðgreindur og flestir sem hafa eitthvað litið til fugla þekkja maríuerlu. Að sumri er hún að mestu grá að ofan og hvít að neðan. Með áberandi svarta kverk og sá litur teygir sig niður á bringu. Kollur er einnig svartur. Dökkir vængir með hvítum vængbeltum. Stél svart með hvítum jöðrum. Kvenfuglinn er dauflitaðri en karlfuglinn. Ungfuglinn er svo enn dauflitaðri, allur grár að ofan og hvítur að neðan, en er þó með bogalaga svartan blett á bringu sem nær upp undir vanga. Maríuerlur eru fjörlegir og kvikir fuglar.

Búsvæði: Velur sér nokkuð fjölbreytt búsvæði, sem er aðallega á láglendi og oft við mannabústaði. Helst er að finna maríuerlur við sveitabæi, í klettum við sjó, við ár og vötn og í þéttbýli víða um land.

Far: Farfugl. Yfirgefa Ísland síðari hluta ágúst og í september. Hafa vetursetu í V-Afríku.

Varptími: Seinni hluti maí og þar til um miðjan júní, verpur einu sinni hér á norðurslóðum. Ungar verða yfirleitt fleygir seinni hluta júní.

Fæða: Ýmis smádýr sem eru tínd upp eða þá að hún flýgur stuttar vegalengdir á eftir skordýrum og grípur þau með gogginum.


Maríuerla, fullorðin

Maríuerla, ungfugl

Stofnstærð:
Evrópa (varppör) Ísland (varppör) Ísland, vetur (einstaklingar)
13.000.000-26.000.000
20.000-50.000
0

ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008