FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR


Krossnefur

Fræðiheiti: Loxia curviriostra.

Ætt: Finkuætt (Fringillidae).

Einkenni: Krókboginn goggur þar sem efri og neðri hluti goggsins ganga á misvíxl. Litur krossnefsins gerir fuglinn auðgreindan frá þeim fuglum sem leita hér í garða. Litur breytilegur hjá kynjum og ungfuglum. Karlfuglar eru rauðir eða appelsínugulleitir og kvenfuglar grágrænir eða gulgrænleitir. Ungfuglar eru grábrúnir að lit og rákóttari en kvenfuglinn. Vængir eru grábrúnir að ofan og gráleitir að neðan.

Búsvæði: Barrskógar og krossnefir sem eru á norðlægum slóðum verpa í greniskógum.

Far: Staðfuglar en leggjast í flakk ef fæðuframboð er lítið. Leggst í flakk ef lítið er af fræjum, sérstaklega ef þéttleiki er mikil (mikið af krossnefjum) og lítil fræframleiðsla á grenitrjám. Margir krossnefir koma oft til landsins við þær aðstæður. Í kjölfar einnar slíkrar göngu reyndi krossnefspar varp árið 1994 en það misfórst. Sumarið 2008 kom mikill fjöldi krossnefja til landsins. Mikið og gott fræár var hjá grenitegundum og því næg fæða. Í kjölfarið hófu krossnefir varp í skógarlundum víða um land. Víða sáust ungar árin 2009 og 2010 og hreiður fannst. Með aukinni skógrækt og hærri barrtrjám aukast líkurnar á því að krossnefur nái hér fótfestu.

Varptími: Mjög breytilegur, allt frá desember og fram í júní og fer tímasetning hans eftir fæðuframboði.

Fæða: Grenifræ er meginfæða á norðurslóðum, en tekur einnig furufræ eins og t.d. í Englandi. Suðlægir stofnar lifa á furufræjum. Þessir fuglar eru sérhæfðar fræætur og ber goggurinn vitni um það en hann er notaður til þess að ná fræjunum úr könglum. Ef greni eða furufræ eru ekki til staðar þá geta krossnefir étið brum af lauftrjám, ávexti ýmsa og skordýr. Hægt er að fá krossnefi í fóður með því að gefa sólblómafræ eða hnetur.


Krossnefur, karlfugl


Krossnefir, kvenfugl og tveir karlfuglar

Stofnstærð:
Evrópa (varppör) Ísland (varppör) Ísland, vetur (einstaklingar)
5.800.000-13.000.000
0-1
0-tugir

ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008