FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR
Niðurstöður úr
garðfuglakönnunum

Garðfuglakönnun Fuglaverndar

Garðfuglakönnun Fuglaverndar hófst veturinn 1994-95. Tilgangurinn er að fá upplýsingar um fuglategundir og fjölda fugla sem halda sig í görðum á Íslandi yfir vetrarmánuðina frá byrjun nóvember til loka apríl. jafnframt er tilgangurinn að hvetja fólk til að líta á fuglalífið í sínu nánasta umhverfi.
Garðfuglakönnunin er einföld í sniðum. Athugendur þurfa að fylgjast með athugunarstaðnum hluta úr degi í hverri viku yfir veturinn, skrá hjá sér tegundir sem sjást og fjölda þeirra. Niðurstöðurnar eru síðan sendar að loknum athugunartímanum til fuglaverndar á netfangið gardfugl@gmail.com eða í pósti merkt: Fuglavernd, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík. Eyðublöð fyrir athugendur eru ávallt aðgengileg á vef Fuglaverndar www.fuglavernd.is.

Þátttakendur hafa verið á bilinu 12-30. Frá því könnunin hófst hafa yfir 70 fuglategundir verið skráðar hjá þeim.

Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt í garðfuglakönnun Fuglaverndar. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri.

Hvaða fugla á að telja? Skráið alla fugla sem nota garðinn á einhvern hátt, t.d. þá sem koma í æti, baða sig, hvíla o.s.frv. Fuglar sem fljúga í gegnum garðinn eins og t.d. smyrill á eftir bráð eða hrafn sem tyllir sér á húsþak skal skrá. Sleppið aftur á móti þeim fuglum sem aðeins eru á flugi yfir. Reynið að telja nokkrum sinnum í hverri viku, en ein vikuleg talning hluta úr degi er þó fullgild. Talningarvika er frá sunnudegi til laugardags, svo tvær helgar falli innan sömu talningarviku. Hámarkstala fyrir hverja tegund á hverju tímabili er síðan skráð á talningareyðublaðið í lok vikunnar. Fylgist þú reglulega með fuglum í garðinum þínum er einfaldasta aðferðin að nota vasabók, gera síðan lista yfir tegundir og skrifa niður fjölda fugla í hverri talningu. Í vetrarlok eru niðurstöðurnar svo skráðar á talningareyðublað

Veturinn 2013 - 2014 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 27. október 2013 til 26. apríl 2014.

Talningaeyðublað og leiðbeiningar er hægt að sækja hér:

2013 -2014. Word og PDF

Eldri talningar:

Talningaeyðublað fyrir veturinn 2012-2013. Word, PDF og Exel
Talningaeyðublað fyrir veturinn 2011-2012. Word og PDF.
Talningaeyðublað fyrir veturinn 2010-2011. Word og PDF.
Talningaeyðublað fyrir veturinn 2009-2010. Word og PDF.

 


ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008