Garðfuglakönnun Fuglaverndar
Garðfuglakönnun Fuglaverndar hófst veturinn 1994-95. Tilgangurinn er að fá upplýsingar um fuglategundir og fjölda fugla sem halda sig í görðum á Íslandi yfir vetrarmánuðina frá byrjun nóvember til loka apríl. jafnframt er tilgangurinn að hvetja fólk til að líta á fuglalífið í sínu nánasta umhverfi.
Garðfuglakönnunin er einföld í sniðum. Athugendur þurfa að fylgjast með athugunarstaðnum hluta úr degi í hverri viku yfir veturinn, skrá hjá sér tegundir sem sjást og fjölda þeirra. Niðurstöðurnar eru síðan sendar að loknum athugunartímanum til fuglaverndar á netfangið gardfugl@gmail.com eða í pósti merkt: Fuglavernd, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík. Eyðublöð fyrir athugendur eru ávallt aðgengileg á vef Fuglaverndar www.fuglavernd.is.
Þátttakendur hafa verið á bilinu 12-30. Frá því könnunin hófst hafa yfir 70 fuglategundir verið skráðar hjá þeim.
Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt í garðfuglakönnun Fuglaverndar. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. |