Fuglagarðurinn - hvað getum við gert til að auka við fuglalífið í garðinum? Það er hægt að gera margt til þess að auka fuglalífið í görðum. Þar skiptir gróður garðsins meginmáli. Fuglaverndarfélög í Evrópu eru farin að leggja aukna áherslu á það að garðeigendur hlúi að lífríki garða sinna. Eitt stærsta fuglaverndarfélag RSPB á Bretlandi vinnur að þessu og á það að verða til þess að sporna við fækkun algengra garðfugla á Bretlandseyjum, sjá nánar á vef RSPB, og ítarlegar upplýsingar hvernig er hægt að hlúa að lífríki garðsins og eiga mörg þeirra ráða einnig við hér á Íslandi.
Kettir og gróskulegt fuglalíf eiga ekki saman. Kettir eru rándýr, með ríkulegt veiðieðli. Kettir sitja um fugla við fóðrunarstaði, fæla fugla frá eða særa þá eða drepa. kettir eru lipur klifurdýr og geta komist í hreiður fugla þó þau séu vel falin hátt uppi í trjám. Kattaeigendur gætu að takmarka útiveru kattanna til þess að minnka fugladrápin, kettir veiða helst í ljósaskiptunum, þá er mikilvægt að halda þeim inni. Einnig væri æskilegt að kettirnir væru sem minnst úti yfir ungatímann þar sem ófleygir og nýfleygir ungar eru auðveld bráð fyrir kettina. Yfir háveturinn þegar birtutíminn er lítill þá eru fuglarnir líklega auðveldari bráð. Fuglarnir reyna að nýta stuttan birtutímann til fæðuöflunar og ef kettir sitja um fóðurstaði skerðir það þann tíma sem fuglarnir hafa til þess að afla fæðu. Þeir verða því ver undirbúnir til þess að takast á við kulda og auðveldari bráð fyrir kettina þar sem líkamsástand fuglanna versnar ef þeir komast ekki í æti. Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að kettir drepa gríðarlegt magn af fuglum og smáum spendýrum og hafa veruleg áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika í náttúrunni. Ástandið hérlendis er líklega mjög svipað. Hér eru slóðir á fréttir af niðurstöðum Bandarísku rannsóknarinnar.
|