FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR

Fuglagarðurinn - hvað getum við gert til að auka við fuglalífið í garðinum?

Það er hægt að gera margt til þess að auka fuglalífið í görðum. Þar skiptir gróður garðsins meginmáli. Fuglaverndarfélög í Evrópu eru farin að leggja aukna áherslu á það að garðeigendur hlúi að lífríki garða sinna. Eitt stærsta fuglaverndarfélag RSPB á Bretlandi vinnur að þessu og á það að verða til þess að sporna við fækkun algengra garðfugla á Bretlandseyjum, sjá nánar á vef RSPB, og ítarlegar upplýsingar hvernig er hægt að hlúa að lífríki garðsins og eiga mörg þeirra ráða einnig við hér á Íslandi.

Gróður: Fjölbreyttur gróður gefur skjól, hreiðurstað og fæðu. Gróskan í fuglalífi er alltaf mest í gamalgrónum görðum með gróskulegum trjám, þéttum runnum og ríkulegum blómgróðri. Þar er fæðuframboð jafnan best. Garðfuglar kjósa oft grenitré sem varpstað. Í greninu finna þeir skjól fyrir veðri og vindum, gott hreiðurstæði og fuglarnir eru vel varðir gegn afráni.

Vatn: Vatn er öllum fuglum nauðsynlegt bæði til að drekka og sem baðvatn. Bað heldur fjöðrunum hreinum. Hreint fiður gefur betri vörn gegn regni og kulda sem er sérstaklega mikilvægt á veturna. Fræætur drekka mikið vatn þar sem fræin eru þurr. Mikilvægt er að skipta reglulega um vatn og hreinsa vatnsskálar. Hreinlæti í mat og drykk eykur heilbrigði garðfuglanna. Vatn má bjóða uppá úr grunnum skálum eða grunnum tjörnum. Sírennsli vatns er best fyrir fuglana ef því er við komandi.

Fóðurgjafir: Vetrartíminn er mörgum fuglum erfiður, einkum þegar snjór og klaki hindra fuglana í að tína fræ eða skordýr af jörðinni. Þá þiggja þeir gjarnan fóður sem borið er út og verða oft furðu spakir. Oftast éta íslenskir fuglar fjölbreytta fæðu og fáar tegundir sem komast upp með sérvisku. Flestir íslenskir garðfuglar þyggja kornmeti, brauð, ávexti, mör og kjötsag. Matarafgangar í safnhaug eru einnig vel þegnir af ýmsum fuglategundum. Munið að hreisa fóðurbretti og fóðurdalla reglulega yfir veturinn til að fyrirbyggja sjúkdóma í fuglunum (sjá nánar um fóðurgjafir undir liðnum fóðrun).


Gróskulegur fuglagarður, með blómum, runnum, trjám og grasflötum

Kettir og gróskulegt fuglalíf eiga ekki saman. Kettir eru rándýr, með ríkulegt veiðieðli. Kettir sitja um fugla við fóðrunarstaði, fæla fugla frá eða særa þá eða drepa. kettir eru lipur klifurdýr og geta komist í hreiður fugla þó þau séu vel falin hátt uppi í trjám. Kattaeigendur gætu að takmarka útiveru kattanna til þess að minnka fugladrápin, kettir veiða helst í ljósaskiptunum, þá er mikilvægt að halda þeim inni. Einnig væri æskilegt að kettirnir væru sem minnst úti yfir ungatímann þar sem ófleygir og nýfleygir ungar eru auðveld bráð fyrir kettina. Yfir háveturinn þegar birtutíminn er lítill þá eru fuglarnir líklega auðveldari bráð. Fuglarnir reyna að nýta stuttan birtutímann til fæðuöflunar og ef kettir sitja um fóðurstaði skerðir það þann tíma sem fuglarnir hafa til þess að afla fæðu. Þeir verða því ver undirbúnir til þess að takast á við kulda og auðveldari bráð fyrir kettina þar sem líkamsástand fuglanna versnar ef þeir komast ekki í æti.

Besti kosturinn er að hafa kettina alfarið inni!

Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að kettir drepa gríðarlegt magn af fuglum og smáum spendýrum og hafa veruleg áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika í náttúrunni. Ástandið hérlendis er líklega mjög svipað.

Hér eru slóðir á fréttir af niðurstöðum Bandarísku rannsóknarinnar.

 


ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008