Jarðfræði

NáttúraFiskarFuglarSpendýrGróðurJarðfræði

Veiðivötn liggja í aflangri lægð með norðaustur – suðvesturstefnu. Lægðin er allt að 5 km breið og 35 km löng frá Norðurnámum á Landmannaafrétti að Ljósufjöllum. Veiðivatnasvæðið frá Snjóölduvatni norðaustur í Hraunvötn er um 20 km langt. Suðaustan við svæðið er móbergshryggur, Snjóöldufjallgarður en öskugígaröð, Vatnaöldur að norðvestanverðu. Í lægðinni eru fjölmörg stöðuvötn og pollar.

Breiðavatn
Horft uppeftir veiðivatnadældinni. Breiðavatn í forgrunni.

Eldgos um 1477 mótaði ásýnd Veiðivatnasvæðisins. Þá gaus á 67 km langri sprungu sem liggur eftir Veiðivatnadældinni miðri. Gosið byrjaði allsstaðar sem þeytigos nema á stuttum kafla meðfram Litlasjó þar sem flæðigos var allan tímann. Síðar tóku flæðigos við af þeytigosunum og hraun tók að renna. Þar sem hraun rann víða yfir mjög blautt land urðu kröftugar gufusprengingar sem mynduðu marga gervigíga sem hlóðu upp gjóskubingjur.

Tjaldvatn og húsaþyrpingin. Fossvatn, Litlisjór og Grænavatn í fjaska.
Tjaldvatn og húsaþyrpingin. Fossvatn, Litlisjór og Grænavatn í fjaska.

Stórir gjóskugígar og stuttar gígaraðir með fjölbreytilegum gosmyndunum eru víða á gossprungunni. Gjóskugígarnir hafa myndast í upphafi goss. Sumir gígarnir eru ógnarstórir. Stærsti gígurinn er þar sem Skálavatn og Langavatn eru í. Hann er um 2,5 km í þvermál þar sem hann er víðastur. Tjaldvatn og veiðihúsin standa í 1,5 km víðum gíg. Í honum er stutt klepragígaröð, Vatnaborgir og hraun frá henni þekur gígbotninn. Fossvötnin eru fallegir gjóskugígar. Í Hraunvötnum eru víða mjög stórir gjósku og klepragígar.

Litla Fossvatn er í stórum gíg
Litla Fossvatn er í stórum gíg og á miðri gossprungunni

Í Veiðivatnagosinu varð til mikið gjóskulag sem er 10 – 12 m þykkt í 2 – 3 km fjarlægð frá gígunum. Askan barst til norðausturs og myndar öskulag á norðausturlandi. Mörg smáhraun urðu til í gosinu, einkum á Hraunvatnasvæðinu og í Pyttlum. Hraunin hafa runnið seinni hluta gossins frá klepragígum.

Fossvatnahraun í miðri gossprungunni.
Fossvatnahraun í miðri gossprungunni.

Flest stöðuvötnin á svæðinu mynduðust í Veiðivatnagosinu. Fyrir gosið er talið að eitt eða fleiri stór stöðuvötn hafi verið á svæðinu. Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn og Litlisjór eru taldar vera leifarnar af þessu vatni eða vötnum.

Litlisjór, fremri hluti.
Litlisjór, fremri hluti.
Litlisjór innri hluti. Hraunvötn í fjaska.
Litlisjór innri hluti. Hraunvötn í fjaska.

Vatnaöldur norðvestan við Veiðivötn eru taldar myndaðar í stórgosi um 871. Þá gaus á um 60 km langri sprungu. Skyggnisvatn er í stærsta gígnum frá því gosi.

Vatnaöldur
Vatnaöldur
NáttúraFiskarFuglarSpendýrGróðurJarðfræði