Urriðinn í Veiðivötnum

Frá náttúrunnar hendi eru Veiðivötn hrein urriðavötn. Urriði finnst nú í flestum vötnum og pollum á Veiðivatnasvæðinu. Sennilega hafa menn frá fornu fari stundað fiskflutninga á milli vatna og síðar skipulagðar seiðasleppingar.

Urriðinn í Veiðivötnum er einstakur. Hann er óvíða stórvaxnari og feitari. Samkvæmt niðurstöðum erfðarannsókna virðist Veiðivatnaurriðinn hafa einangrast ofan ófiskgengra fossa fljótlega eftir að ísöld lauk. Óvíða í heiminum er til hreinni stofn af þessum ísaldarurriða. Urriðinn í Þingvallavatni er af sömu gerð.
Urriðar af þessum stofni eru sérlega hraðvaxta og verða síðar kynþroska en urriðar af sjógöngustofnum eða stofnum í láglendisvötnum.

Vöxturinn er yfirleitt góður eða 4-7 sm á ári þrátt fyrir stuttan vaxtartíma. Þar sem rúmt er um fiskinn og nóg fæða eins og í Grænavatni er vöxturinn allt að 11 sm á ári. Slíkur vöxtur er sjaldséður í vötnum en svipar til vaxtar hjá sjóbirtingi. Í flestum vötnum eru botndýr uppistaðan í fæðu urriðans. Fæðuframboðið er mjög breytilegt á milli ára en einnig á milli vatna. Skötuormur er mjög mikilvæg fæða síðari hluta sumars í mörgum vötnum en að auki nýtir urriðinn vatnabobba, hornsíli, rykmýslirfur og vorflugulirfur. Vatnabobbar eru algeng fæðugerð í Skálavatni, Langavatni, Litlasjó, Snjóölduvatni og Ónýtavatni en skötuormur í Stóra-Skálavatni, Nýjavatni, Litla-Skálavatni og Grænavatni.

Algengast er að Veiðivatnaurriðinn verði kynþroska 7-9 ára þá orðinn 40 sm og l kg. Allt að 20 punda fiskar hafa veiðst í Veiðivötnum og árlega veiðast 10-15 punda fiskar. Þessir stórfiskar eru oft 9-16 ára gamlir. Urriðinn hrygnir í malarbotn í rennandi vatni í október til desember. Hrygningarstöðvarnar eru oftast á um 0,5-2 m dýpi. Í mörgum vatnanna eru slík skilyrði eingöngu við lindir. Léleg hrygningarskilyrði og uppeldisskilyrði fyrir smáseiði eru í mörgum stóru vatnanna. Þar er því stopul náttúruleg nýliðun. í Grænavatni og
Ónýtavatni er mjög lítil nýliðun og í Litlasjó heppnast klak aðeins í einstaka árum. Í Fossvötnum, flestum Hraunvatnanna og í Skálavötnum eru þokkalegar aðstæður til hrygningar. Þar sem náttúruleg nýliðun nægir ekki til að viðhalda afkastamiklum stofni hefur undanfarin ár verið gripið til seiðasleppinga. Urriðinn er uppistaðan í stang- og netaveiði í Veiðivötnum og undirstaðan í fæðu himbrimans á vatnasvæðinu.

Fiskar í VeiðivötnumUrriðiBleikjaHornsíli