Lokatölur úr Veiðivötnum

Lokatölur frá veiðitímabilinu í Veiðivötnum eru nú komnar á vefinn.
Sunnudaginn 15. september lauk veiði í Veiðivötnum. Stangveiðitímabilinu lauk 21. ágúst en veitt var í net og stöng 23. ágúst til 15. september.

Alls veiddust 30230 fiskar á veiðitímabilinu. Þetta er því þriðja besta veiðitímabilið í sögu Veiðivatna.  Sjá samanburð.
Heildarafli stangveiddra fiska var 21049 fiskar, 10314 urriðar og 10735 bleikjur.

Flestir stangveiddir fiskar komu á land úr Snjóölduvatni, 5650 og úr Litlasjó fengust 4857 fiskar.
Þyngsti fiskurinn er 16,06 pd urriði úr Grænavatni, sem kom á land í síðustu veiðivikunni. Aldrei hafa jafnmargir stórfiskar veiðst í Veiðivötnum eins og í sumar. Stærstir voru þeir í Grænavatni en einnig veiddust óvenju stórir urriðar í Hraunvötnum og í Skálavatni. 

Í netin fengust 9181 fiskur, 1717 urriðar og 7464 bleikjur.

Mynd: Fossvötn á góðum síðsumarsdegi. Ljósm: Örn Óskarsson

Veiðitölur – sjá nánar

Myndir af veiði og veiðimönnum 2019

Bleikja í Litlasjó

Bleikja veiddist í net í Litlasjó í byrjun netaveiðitímans í ágústlok. Um var að ræða 56 cm og 2420 gr hrygnu.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa rannsakað fiskinn. Bleikjan var hrognafull og hefði líklega hrygnt í haust ef hún hefði lifað. Líklega hefur hún hrygnt einu sinni áður (haustið 2018).
Bleikjan reyndist 8-10 ára, líklegasti aldur er 9 ár. 
Hreistur og kvarnir báru þess merki að hún gæti verið af náttúrulegum uppruna eða úr eldi sem smátt seiði.
Þetta byggir á því að hún var smá eftir eins árs vöxt (8 cm samkvæmt bakreikningi á hreistri).
Verið er að skoða það hvort komast megi nær um uppruna bleikjunnar með erfðarannsóknum. 

Vonandi er um einstakt tilvik að ræða. Ein bleikja gerir engan skaða. Í Litlasjó er mikið veiðiálag bæði í stangveiði og netaveiði og því líklegt að bleikjur hefðu komið fram í veiðinni fyrr ef um eitthvað magn væri að ræða. Við vonum það besta.