Veitt í klak

Dagana 27. – 28. september kom vaskur hópur veiðimanna inn í Veiðivötn og veiddi urriða í klak. Þetta er gert á hverju hausti í lok september.

Hreinsað úr neti í Fyrstu vík í Litlasjó 27. september 2024


Að þessu sinni gékk veiðin mjög vel. Veitt var á þremur stöðum í Litlasjó og Stóra Hraunvatni.
Teknar voru 40 hrygnur og 9 hængar. Fimm til sex punda fiskar gefa bestan árangur í klakinu.

Klakveiðimenn efst í Stóra Hraunvatni


Fiskarnir eru fluttir til byggða og klak fer fram í eldisstöðinni í Götu í Holta- og Landsveit.
Seiðin eru alin í 1-2 ár í stöðinni fyrir sleppingu í Veiðivötn. Til að viðhalda jöfnum og góðum fiskistofnum í urriðavötnum með lök hrygningaskilyrði þá eru seiðasleppingar nauðsynlegar. Bleikjan bjargar sér sjálf og engin þörf fyrir sleppingu bleikjuseiða.
Myndirnar voru teknar 27. september.



Tvær myndavélar

Nú hafa verið settar upp og teknar í notkun tvær nýjar og fullkomnar myndavélar í Veiðivötnum.
Önnur er á Skemmunni þar sem gamla vélin var. Hin er staðsett á nýja húsinu Bjarkalundi. Saman ná þær yfir allt svæðið þar sem húsin standa.

Nýju vélarnar eru í miklu betri gæðum en sú gamla og mun gagnast vel til að vöktunar allan ársins hring.
Einnig gefa þær gott yfirlit yfir veður og landslag.