Veiðitölur 2023

Sumarið 2023 verða veiðitölur birtar með nýju sniði. Núna munu upplýsingar um afla birtast á Veiðivatnavefnum jafnóðum og þær eru skráðar inn í Veiðivötnum. Þökk sé Helga Þór Guðmundssyni fyrir forritun og vinnu við að koma upp þessu skráningarformi.
Örn Óskarsson mun áfram sjá um úrvinnslu úr gögnunum svo sem gröf yfir samanburð á milli vikna / ára.

Afli í Veiðivötnum sumarið 2023

Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk þriðjudaginn 22. ágúst. Veiðitíminn einkenndist einkum af hægum vindum, þurrviðri og ánægðum veiðimönnum.
Alls veiddust 23372 fiskar á stangveiðitímabilinu, 14285 urriðar og 9087 bleikjur. Þetta er talsvert betri veiði en undanfarin sumur. Mest veiddist í Litlasjó. Þar kom 6101 urriði á land. Urriðaveiði var einnig góð í Stóra-Fossvatni, Hraunvötnum og í Ónýtavatni. Mest veiddist af bleikju í Snjóölduvatni (3024) og Langavatni (1990). Stærsti urriði sumarsins veiddist í Skálavatni. Hann var 8,2 kg (16,4 pd). Í Ónefndavatni, Hraunvötnum og Litlasjó fengust nokkrir 10-11 pd urriðar. Stærsta bleikjan var 2,5 kg (5 pd) og veiddist í Breiðavatni.
Netaveiði veiðirétthafa í Veiðivötnum hófst 25. ágúst. Talsvert er um að netaleyfi séu nýtt sem stangveiðileyfi á þessu tímabili. Veiðitölur frá netatímanum birtast í lok veiðitímans eftir miðjan september.