Seiðasleppingar

Veiðin í Veiðivötnum
Veiðisaga VeiðivatnaVeiðisaga landmanna

Til eru upplýsingar um seiðasleppingar frá árinu 1965. Engar heimildir liggja fyrir um fiskflutninga fyrir þann tíma. Árið 1965 var nokkrum seiðum ásamt klakfiski sleppt í Hraunvötn. Seiðin voru klakin í klakhúsi á Heiðarbrún í Holtum. Aftur var seiðum sleppt í Hraunvötn 1969.

Veiðifélagið hefur látið veiða klakfisk í vötnunum frá árinu 1965.
Árin 1975, 1976, 1979-82, 1985 og 1992 var engum seiðum sleppt í Veiðivötn en annars var töluverðu magni urriðaseiða sleppt árlega.

Rúnar og Hermann veiðiverðir taka á móti seiðasendingu frá Einari í Götu 5. ágúst 2013

Í fyrstu var aðallega sleppt kviðpokaseiðum í fisklaus vötn svo sem Hraunvötn og Litlasjó. Á siðari árum hefur áhersla verið lögð á sleppingu stærri seiða, einkum ársgömlum, enda hefur árangur þess reynst betri.

Með tilkomu fiskeldisstöðvarinnar að Fellsmúla í Landsveit um miðjan 9. áratuginn varð veruleg aukning í seiðaeldi og sleppingum. Frá árinu 2011 hafa seiðin komið úr klakhúsi og seiðaeldisstöð að Götu í Holtum.

Nú er áhersla lögð á sleppingu í vötn sem hafa lélega nýliðun eins og Litlasjó, Ónýtavatn, Grænavatn og Snjóölduvatn. Jafnframt hefur verið sleppt í önnur vötn svo sem Tjaldvatn, Litla- og Stóra-Skálavatn, Breiðavatn, Nýjavatn, Langavatn, Arnarpoll, og Stóra-Fossvatn (1999-2002).

Pyttlur, Fremra-Ónýtavatn, Skálavatnspollur, Ónefndavatn, Litla-Breiðavatn, Kvíslarvatnsgígur og Andapollur voru fisklaus. Urriðaseiði voru sett í flest þessi vötn árið 1974 en einnig síðar. Frá upphafi hefur eingöngu urriðaseiðum verið sleppt í vötnin og þess kappkostað að nota eingöngu urriða af Veiðivatnastofni. Klakfiskurinn hefur komið úr Hraunvötnum og úr Litlasjó. Árin 1999 til 2002 var nokkur þúsund seiðum sleppt í Stóra Fossvatn. Þá var klakfiskurinn tekinn úr Stóra Fossvatni og seiðunum haldið aðgreindum frá öðrum seiðum.
Árið 1973 var 10 þúsund seiðum ættuðum úr Meðalfellsvatni sleppt í Litlasjó. Erfðamengun frá þessum stofni er óveruleg en finnst þó í Litlasjó. Fiskur úr Litlasjó hefur margoft verið nýttur til hrognatöku svo möguleiki er á erfðamengun víðar þó svo slíkt hafi ekki mælst.

Seiðum sleppt í Ónýtavatn 2016
Seiðum sleppt í Ónýtavatn í júní 2016. Einar í Götu, Kjartan Magnússon þáverandi formaður veiðifélagsins og Örn Óskarsson

Flestum seiðum var sleppt árið 1986. Um 105 þúsund sumaröldum seiðum var þá sleppt í 15 vötn, mest 35 þúsund seiðum í Litlasjó. Frá árinu 1993 hefur árlega verið sleppt 20-105 þúsund seiðum, mest í Litlasjó. Árangur seiðasleppinga í Veiðivötnum er augljós. Áður fisklaus vötn eins og Hraunvötn og Litlisjór eru nú full af fiski og aflaaukning kemur fram í rannsóknarveiðum og í stang- og netaveiði í kjölfar seiðasleppinga í Litlasjó, Grænavatni, Ónýtavatni og Snjóölduvatni. Greining á hreistri og kvörnum ásamt merkingum sýna að aflaaukning í þessum vötnum er vegna sleppinga. Miðað við árangur er mjög brýnt að halda áfram seiðasleppingum í þau vötn sem sýna lélega eða enga nýliðum því ljóst er að það er forsenda fyrir jafnri og góðri veiði í Veiðivötnum.

Seiðasleppingar í Veiðivötnum 1969 – 2019. Unnið úr gögnum frá Veiðimálastofnun.