Veiðitölur úr Veiðivötnum

Í sumar munu nýjar veiðitölur úr Veiðivötnum birtast vikulega á föstudögum.
Nú eru komnar á vefinn veiðitölur úr 1. – 2. viku veiðitímans (18. júní – 2. júlí).

Mest veiðist í bleikjuvötnunum enda halda flestir veiðimennirnir sig þar. Í annari viku veiddust 3179 fiskar, 2134 bleikjur og 1038 urriðar. Alls hafa veiðst 5807 fiskar í Veiðivötnum það sem af er sumri. Mesta veiðin er í Snjóölduvatni, 2039 fiskar hafa komið þar á land en Litlisjór er næstur með 716 fiska. Enn er ófært í Skyggnisvatn.

Veiðitölur 2020.

Frítt í Frostastaðavatn

Gjaldfrjáls veiði verður í Frostastaðavatn sumarið 2020.
Stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar hefur ákveðið að í sumar verði aftur gert átak í grisjun á bleikjustofninum í Frostastaðavatni. Veiðin verður gjaldfrjáls og verður bæði heimilt að veiða á stöng og í net. Einungis verður farið fram á góða umgengni við vatnið sem og að skrá fjölda fiska, tegundir, þyngd afla, fjölda neta, möskvastærð og hve lengi þau liggja. Skráning er afar mikilvæg og veiðiskýrslum á að skila að lokinni veiðiferð í söfnunarkassa við Frostastaðavatn (vegamót) eða í Landmannahelli. Best er að nota 30 mm möskva á legg eða smærri. Veiðimenn verða sjálfir að útvega sér veiðarfæri og bát. Veiðitíminn er frá 18. júní til 15. september.

Veiðimönnum er bent á gistiaðstöðu í Landmannahelli og þar eru líka seld veiðileyfi í önnur vötn sunnan Tungnaár.