FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR

| Þrestir og starar | Finkur og tittlingar | Hrafnar og máfar |

Fóðrun - Þrastategundir, stari, silkitoppa, hettusöngvari, glóbrystingur


Skógarþrestir, svartþrestir og starar eru algengir vetrarfuglar í görðum um sunnanvert landið en sjást einnig víðar. Að jafnaði éta þessar tegundir skordýr og önnur smádýr en ber á haustin. Í vetrarhörkum leita þeir í æti sem menn bera út í garð og eru sérlega sólgnir í feitmeti eins og kjötsag og mör. Einnig þiggja þeir ávexti svo sem epli, perur og rúsínur. Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað með matarolíu eða öðru feitmeti er einnig vel þegið í vetrarkuldum. Best er að koma þessum kræsingum fyrir á fóðurpalli eða hengja upp í tré. Epli og perur er gott að skera í tvennt og stinga uppá greinarenda 1-2 metra frá jörðu.

Skógarþröstur og silkitoppa deila með sér epli.


Ýmsar erlendar fuglategundir halda sig í stundum vetrarlangt á Íslandi og eru þá oftar en ekki háðar matargjöfum til að lifa af. Dæmi um slíka gesti er gráþröstur, söngþröstur, mistilþröstur, silkitoppa, glóbrystingar og hettusöngvari. Erlendu þrestirnir hafa svipaðar matarvenjur og skógarþrestir og éta feitmeti, ávext og brauð hvort sem er af jörðu niðri eða af fóðurbretti. Silkitoppur eru sérhæfðar berjaætur og éta einkum ávexti svo sem epli og perur. Glóbrystingar vilja helst fá brauðbita eða kjötsag. Helst kjósa þeir að matast innundir runnum eða grenigreinum.


Hettusöngvari, kvenfugl.


Hettusöngvarar éta feitmeti en einnig ávexti. Með stöðugri fóðrun er hægt að halda þeim á lífi yfir veturinn. Þeir eru einkum skordýraætur en éta þó lítil ber á haustin. Þeir leita sér að æti í trjám og runnum en fara sjaldan niður á jörðina. Best er því að gefa þeim á fóðurpalla eða sletta kjötsagi eða mör inn í runna eða á greinar grenitrjáa. Þeir þola illa samkeppni við stærri fugla og því er síðari aðferðin góð.

Gráþröstur

 


ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008