FORSÍÐA | HVAÐ ERU GARÐFUGLAR | TEGUNDIR | FÓÐRUN | FUGLAGARÐURINN | GARÐFUGLAKÖNNUN | SKRÁ NIÐURSTÖÐUR

| Þrestir og starar | Finkur og tittlingar | Hrafnar og máfar |

Fóðrun - Snjótittlingur, auðnutittlingur, barrfinka, bókfinka, fjallafinka og krossnefur

Auðnutittlingar að éta sólblómafræ úr hangandi fóðurdalli.

 

Nokkrar tegundir vetrarfugla í görðum eru sérhæfðar fræætur. Snjótittlingar, auðnutittlingar, barrfinkur, dúfur og rjúpur eru algengustu gestirnir í þeim hópi.

Snjótittlingar éta einkum fræ af jörðinni. Snjótittlingum er frekar illa við að vera inn á milli trjáa og því er best að gefa þeim á opnu svæði eða á húsþök. Þeir éta líka af fóðurpöllum en aðeins einstaka fugl lærir að éta úr hangandi fóðurdalli. Mulið maískorn, sólblómafræ og finkukorn er í uppáhaldi hjá þeim.

Auðnutittlingar og barrfinkur vilja einkum sólblómafræ og finkukorn. Mjög auðvelt er að venja þá á að éta úr hangandi fóðurdöllum, kornstönglum og af fóðurpöllum í trjám. Þeir éta líka finkukorn af jörðinni. Með því að hengja fóðurdalla í tré rétt utan við glugga er hægt að fylgjast vel með atferli þeirra og hafa mikla ánægju af.

Bókfinka og fjallafinka eru erlendir flækingsfuglar í görðum. Þeir sjást flesta vetur. Þessar tegundir éta fyrst og fremst af jörðinni en fara stundum á fóðurpalla í trjám.

Einstaka sinnum kemur fyrir að krossnefir sæki í fóðurkorn í görðum. Þeir eru gæfir og auðvelt að venja þá á að éta sólblómafræ af fóðurpöllum.

Dúfur og rjúpur eru kornætur sem sækja í garða í harðindum. Rjúpur eru einkum við sveitabæi inn til landsins en eiga það til að sjást í görðum í úthverfum þéttbýlisstaða.

Mynd fyrir neðan.
Sólblómafræ, finkukorn og mulin maískorn


Snjótittlingar og auðnutittlingar á fóðurbretti.


Barrfinkur (kk)


Krossnefur (kk)


ÓLAFUR EINARSSON OG ÖRN ÓSKARSSON 2008