Fuglalíf
í Veiðivötnum
Alls hafa 57 fuglategundir
sést á Veiðivatnasvæðinu. Þar af eru
22 tegundir árvissir varpfuglar. Ásamt varpfuglunum sjást
11 tegundir reglulega en ekki hefur tekist að staðfesta varp.
Um 24 tegundir hraknings og flækingsfugla hafa sést á
svæðinu.
Nú á
tímum eru Breiðaver og verin við Ampapoll mikilvægustu
varpsvæði fugla á Veiðivatnasvæðinu. Þar
er mikið óðinshana-, anda- og heiðagæsavarp.
Á varptíma eru stokkendur og hávellur algengustu
endurnar en einnig sést talsvert af duggönd, skúfönd,
urtönd og grafönd í verunum. Talsvert er einnig af fuglum
í verum við Nýjavatn, Snjóölduvatn, í
Kvíslum, við Fossvötnin, Stóra Skálavatn,
víða í Hraunvötnum, umhverfis Tjaldvatn og við
Slídrátt. Álftir verpa í verum víða
á svæðinu.
Á bökkum vatna og kvísla verpa himbrimar og endur,
einkum stokkendur og hávellur. Á vikuröldum á
milli vatnanna er varpsvæði sendlings, sandlóu og Kríu.
Nokkur kríuvörp eru á svæðinu. Allsstaðar
þar sem kletta er að finna svo og í hraunum er snjótittlingur
með hreiður. Hann er algengasti varpfuglinn á svæðinu.
Stöku maríuerlupör verpa einnig í hraungjótum.
Maríuerla er árviss varpfugl í Vatnsgíg við
Tjaldvatn.
Heiðlóur, stelkar, steindeplar, þúfutittlingar
og rjúpur teljast sjaldgæfir varpfuglar.
Haförn verpti
í Arnarsetri við Stóra Skálavatn til ársins
1902. Á meðan arnarvarpið var til staðar virðist
sem stórt andavarp hafi verið í hólmunum í
Skálavatni í næsta nágrenni arnarhreiðursins.
Nú eru þar fáir fuglar. Síðsumars er oft
líflegt fuglalíf í Veiðivötnum. Þá
koma á svæðið fuglar í fæðuleit
svo sem hópar af steindeplum, þúfutittlingum og maríuerlum
og fuglar sem eiga leið um á farflugi. Þá sjást
smyrlar, hettumáfar, spóar, hrossagaukar, helsingjar og
skógarþrestir stakir eða nokkrir saman.
Á Grænavatni
er stór andahópur í fjaðrafelli öll sumur.
Þetta eru mest duggendur og hávellur en einnig nokkuð
um skúfendur. Annar minni fellihópur er á litlu grunnu
vatni vestast í Hraunvatnaklasanum. Þar eru einkum duggendur.
Markvissar rannsóknir
á fuglalífi í Veiðivötnum eru fáar
og einkum frá síðari árum. Í lok síðustu
aldar ferðuðust innlendir og erlendir fuglaáhugamenn um
Veiðivatnasvæðið. Þorvaldur Thoroddsen (1889)
getur um fugla Í Veiðivötnum í ferðabók
sinni og breskir ferðamenn og eggjasafnarar Þeir Henry J. og
Charles E. Pearson (1894) lýsa fuglalífi við Tjaldvatn.
Erling Ólafsson,
Ólafur Karl Nielsen og Örn Óskarsson könnuðu
fuglalíf í Veiðivötnum 15.-16. júní
1980. Arnþór Garðarsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson
rannsökuðu fuglalíf úr flugvél að vetrar-
og sumarlagi á 9. áratugnum.
Örn Óskarsson hefur fylgst með fuglalífi í
Veiðivötnum frá árinu 1969 er hann kom fyrst á
svæðið. Hann fór sérstakar ferðir til
fuglarannsókna í Veiðivötnum árin 1994-2006.
Einar Þorleifsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson könnuðu
fuglalífið 3.-4. júlí 1996.
Efst
á síðuna
|