Náttúra

NáttúraFiskarFuglarSpendýrGróðurJarðfræði
Snjóöldufjallgarður, Tungnaá og Litlisjór
Séð eftir Snjóöldufjallgarði til suðvesturs. Tungnaá vinstra megin en veiðivatnadældin hægra megin með Litlasjó í forgrunni

Veiðivötn er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Alls eru vötn og pollar á svæðinu 50 talsins. Vötnin liggja í aflangri dæld sem er breiðust um 5 km og um 20 km löng frá Snjóölduvatni í suðvestri að Hraunvötnum í norðaustri. Þau eru í 560-600 m hæð yfir sjávarmáli. Austan Veiðivatna liggur Snjóöldufjallgarður en Vatnaöldur vestan þeirra.

Útsýni ofan af Snjóöldufjallgarði til vesturs yfir Veiðivatnadældina
Útsýni ofan af Snjóöldufjallgarði til vesturs yfir Veiðivatnadældina

Mörg Veiðivatnanna eru gígvötn mynduð í Veiðivatnagosinu 1477. Þau eru flest lítil um sig, innan við 1 km2, en oft hyldjúp. Eskivatn og Nýjavatn eru dýpst, um og yfir 30 m djúp.
Stærstu vötnin eru Litlisjór, Grænavatn, Ónýtavatn og Snjóölduvatn. Litlisjór er langstærstur um 9,2 km2, Grænavatn 3,3 km2 og Snjóölduvatn 1,6 km2. Þessi vötn eru ekki gígvötn og voru til fyrir 1480. Tjaldvatn og Breiðavatn eru grynnst, meðaldýpi um 1-3 m.

Litla Breiðavatn, Veiðivötn
Litla Breiðavatn

Á neðri hluta Veiðivatnasvæðisins eru gróðurlitlar vikuröldur og melar áberandi í umhverfi vatnanna en norðar setja mosavaxin hraun sterkan svip á landslagið. Hraunin og klepragígarnir á Hraunvatnasvæðinu eru sérlega tilkomumikil. Sömuleiðis eru fallegar hraunmyndanir í Fossvatnahrauni, við Skálavötn og Pyttlur.

Tröllið við Tungnaá
Tröllið við Tungnaá

Talsvert votlendi er meðfram Vatnakvísl sem einkennist af grunnum tjörnum, pollum og mýrarfenjum. Breiðaver og verin við Ampapoll eru stærst en minni ver eru við Nýjavatn, Snjóölduvatn og í Kvíslum neðan við Grænavatn. Verin eru stærstu samfeldu gróðursvæðin og mikilvægust fyrir fuglalífið í Veiðivötnum.

Tjaldvatn og Skálavatn
Tjaldvatn og Skálavatn

Gróðurfar hefur öræfasvip. Mosi er algengasti gróðurinn og setja mosaklæddir gjallhólar víða einkennandi svip á svæðið. Mest er gróskan í gróðrinum þar sem raka er að finna svo sem á bökkum vatna og lækja. Jarðvegur á Veiðivatnasvæðinu er mjög sandorpinn, blanda af sandi og ösku. Hann bindur vatn lítið og aðeins þurrkþolnar og harðgerðar plöntur dafna í slíkum jarðvegi. Í þurrum og snörpum vindi fýkur sandur af Vatnaöldum og hraunbreiðunum norður af Hraunvötnum og Litlasjó suður yfir vötnin. Moldarmyndun er mjög hæg. Moldarjarðveg er helst að finna meðfram vatns- og lækjarbökkum.

Sandfok á Vatnaöldum
Sandfok á Vatnaöldum

Þekktust eru vötnin fyrir gjöfula silungsveiði. Urriði er náttúrulegur á svæðinu og er nú í flestum vötnum, en bleikja hefur komist úr Tungnaá í nokkur af neðstu vötnunum. Hornsíli finnast í flestum vötnum.
Vötnin eru flest mjög lífauðug. Plöntusvif er ríkulegt og frumframleiðsla mikil. Botndýralíf er ríkulegt en svifdýralíf aftur á móti fábreyttara. Af botndýrum eru lirfur rykmýs og vorflugi áberandi svo og vatnabobbar. Skötuormar finnast í flestum vötnum síðsumars. Lirfur bitmýs eru algengar í botni kvísla og lækja . Einkum er bitmý mikið við Fossvötn, Tjaldvatn, Langavatn og Eskivatn.

Rykmýsmor (toppfluga) á Litla Skálavatni
Rykmýsmor (toppfluga) á Litla Skálavatni

Fuglalíf er fjölbreytt á svæðinu. Breiðaver og verin við Ampapoll, Nýjavatn, Snjóölduvatn og í Kvíslum neðan við Grænavatn eru mikilvægust fyrir fuglalífið á svæðinu. Einnig er mikið um fugla við Tjaldvatn, Skálavatn, Fossvötnin og víða í Hraunvötnum.

Óðinshana eru varpfuglar í Veiðivötnum
Óðinshana eru varpfuglar í Veiðivötnum en dvelja á Kyrrahafi við strendur Perú á vetrum

Þrjár tegundir villtra spendýra finnast á svæðinu, refur, minkur og hagamús.

NáttúraFiskarFuglarSpendýrGróðurJarðfræði