Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/block-template-utils.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/block-template-utils.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-terms-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-terms-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-themes-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/veidivotn.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-themes-controller.php on line 1
Veiðisagan | VEIÐIVÖTN Á LANDMANNAAFRÉTTI

Veiðisagan

Veiðin í VeiðivötnumVeiðisaga landmannaSeiðasleppingar

Saga silungsveiða í Veiðivötnum

Silungsveiði hefur eflaust verið stunduð í Veiðivötnum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Veiðisaga vatnanna er að mestu ókunn á fyrri öldum en þeirra er fyrst getið í Njálu en eru þar nefnd Fiskivötn. Um aldamótin 1700 minnist Árni Magnússon á Veiðivötn í riti sínu og segir að þar sé nógur silungur.

Á fyrri öldum var veiðin stunduð bæði úr Skaftártungu og Rangárvallasýslu en síðustu 200 árin einkum úr Rangárvallasýslu og nokkuð úr Árnessýslu.

Þorvaldur Thoroddsen getur þess í ferðabók sinni (1898) að veiði sé farin að minnka mikið í vötnunum næst kofunum síðan menn fóru að brúka lóðir. Þá voru menn nýlega byrjaðir að leggja lóðir í Snjóölduvatni og þar var veiðin mikil. Á þessum árum var ekki talinn vera fiskur í Litlasjó, Grænavatni og Ónýtavatni. Þó reyndu menn að leggja þar líka en veiðin var engin.

Tjarnarkot
Tjarnarkot, gamall veiðimanna- og smalamannakofi við Tjaldvatn.
Tjarnarkot var síðast endurbyggt upp úr aldarmótunum 1900 og rúmaði þá tíu menn

Fiskurinn var sendur til byggða ef vel veiddist áður en veiðiferð lauk en annars var hann hertur eða saltaður innfrá. Í ferðabók Sveins Pálssonar (1945) er þess getið að Skaftártungumenn hafi stundað miklar silungsveiðar upp við Fiskivötn á haustin en veiðiferðirnar hafi lagst að nokkru niður eftir 1740. Veiðivatnaferðir Skaftfellinga hættu síðan endanlega í Móðuharðindunum og engar heimildir til um að þær hafi hafist að nýju eftir harðindin. Veiði var mjög lítið stunduð á 18. öld. Ástæðan er sennilega tíð eldgos.

Guðmundur Árnason í Múla á Landi segir í Árbók Ferðafélags Íslands 1940 að eftir Kötlugosið 1918 hafi veiði dottið niður í Veiðivötnum. Aðeins fengust fáeinir gamlir horslápar en beinagrindur hafi legið með löndum. Fjórum til fimm árum seinna fór að votta fyrir ungviði. Um 1940 töldu vatnakarlar að silungurinn hafi enn ekki náð sér að stærð og gæðum. Mjög líklega hefur álíka hrun í stofni Veiðivatnaurriðans gerst oft fyrr á öldum í tengslum við stórgos.

Á síðustu öld voru það einkum Landmenn sem nytjuðu vötnin og hefur svo verið lengst af á 20. öld.

Löngum var fáförult til Veiðivatna enda Tungnaá mikil hindrun. Árið 1950 fannst Hófsvað og þá komust fjallabílar inn í Veiðivötn. Um svipað leiti eru dæmi þess að flugbátur hafi flutt veiðimenn frá Vestmannaeyjum til vatnanna og lent á einhverju vatnanna. Um 1960 stunduðu bændur netaveiði mjög stíft enda var veiðin oft ævintýraleg. Einnig slæddust inneftir stangveiðimenn sem einnig veiddu vel. Jeppavegur opnaðist til Veiðivatna með tilkomu kláfferjunnar á Tungnaá 1964 og eftir að brú kom á Tungnaá við Sigöldu 1968 var auðfarið inn í Veiðivötn og umferð mikil.

Tjöld við Kvíslarvatn
Um 1970 var tjaldað víða á Veiðivatnasvæðinu. Hér eru tjöld við Kvíslarvatn.

Veiðifélag Landmannaafréttar var stofnað um vötnin árið 1965. Þá var tekinn upp sá háttur að stangveiðimönnum var leigð veiði í tvo mánuði, oftast frá 20. júní til 20. ágúst en þá tók netaveiði bænda og landeigenda í Holta- og Landsveit við til 20. september. Netaveiði er nú takmörkuð við 12 vötn af þeim 22 sem veiði er stunduð. Mest er lagt í Litlasjó og önnur stór vötn. Fjöldi neta er takmarkaður. Í nokkrum vötnum t.d. í Litlasjó eru svæði friðuð fyrir netaveiði og ákveðin lágmarks möskvastærð.

Stangafjöldi hefur alltaf verið takmarkaður í Veiðivötnum og á 7. og 8. áratugnum voru veiðitakmarkanir í einstökum vötnum og ákveðin veiðisvæði í vötnum friðuð. Á árunum 1965-1980 var stangafjöldi takmarkaður við 20 stangir á dag en nú er miðað við að stangafjöldinn fari ekki yfir 80 stangir. 
Veiðileyfin hafa lengst af eingöngu verið seld í Skarði í Landsveit allt til ársins 1999. Sigríður Theodóra Sæmundsdóttir í Skarði í Landsveit (Dóra í Skarði) annaðist söluna árin 1967-1999. Frá árinu 2000 hefur Bryndís Magnúsdóttir selt veiðileyfin.

Dóra í Skarði
Dóra í Skarði afgreiðir stangveiðileyfi 19. ágúst 1999

Veiðivörður hefur verið í Veiðivötnum frá 1959. Sæmundur Guðmundsson var veiðivörður frá 1959-1966 og aftur 1980-1985. Gunnar Guðmundsson var veiðivörður frá 1967-1979. Frá árinu 1986 hafa Rúnar Hauksson og Bryndís Magnúsdóttir séð um gæslu á svæðinu. Hermann Karlsson hefur verið þeim til aðstoðar síðustu árin allt til haustsins 2018. Birgitta Hermanndóttir og Hlynur Ásgeirsson byrjuðu sem veiðiverðir sumarið 2018. Kristinn Helgason hefur verið starfsmaður í Veiðivötnum undanfarin ár og hefur séð um viðhald á vegum innan svæðisins.