Veiðin í Veiðivötnum | Veiðisaga Veiðivatna | Seiðasleppingar |
Brot úr veiðisögu Landmanna í Veiðivötnum
Á síðustu öld voru það einkum Landmenn sem nytjuðu Veiðivötn og hefur svo verið lengst af á þessari öld. Silungsveiðin var bændum mikil búbót og var lögð að jöfnu við heila vertíð í Vestmannaeyjum. Vatnaferðir voru stundaðar lítilega á vorin en einkum á haustin. Oftast var ekki verið skemur en viku í þessum ferðum og stundum lengur. Gott þótti að veiða 30 hestburði (3000 kg) á vertíð. Veitt var með netum og lagðar lóðir. Einnig var dregið á voga og afrennsli vatnanna. Mest veiddu menn í Fossvötnum, Stóra-Skálavatni, Langavatni, Eskivatni og Kvíslarvatni en minna í Nýjavatni, Breiðavatni og Snjóölduvatn. Síðustu áratugina hefur veiðin meira verið stunduð fyrir sportið. Nú hafa jarðeigendur í Holta- og Landsveit rétt til netaveiða í vötnunum, hvort sem jörð er í ábúð eða ekki. Veiðiréttur miðast við arðskrá frá 1970. Rétt til netaveiða hefur nú 101 jörð. Hver jarðareigandi hefur leyfi fyrir tvær lagnir í tvo daga. Hver lögn er tvö samtengd net, hvort 23 faðma langt.