Veiðivertíðinni í Veiðivötnum lauk sunnudaginn 17. september kl.15. Sumarið var einstaklega gott uppi á hálendinu og mikil veiði.
Alls veiddust 33798 fiskar á stangveiðitímabilinu, 15415 urriðar og 9140 bleikjur. Þetta var þriðja mesta veiði frá upphafi skráningar í Veiðivötnum. Aðeins 2009 og 2010 voru betri.
Á stangveiðitímanum fengust 23372 fiskar, 14285 urriðar og 9087 bleikjur. Þetta er talsvert betri veiði en undanfarin sumur. Á stangveiðitímanum veiddist mest í Litlasjó. Þar kom 6101 urriði á land. Urriðaveiði var einnig góð í Stóra-Fossvatni, Hraunvötnum og í Ónýtavatni. Mest veiddist af bleikju í Snjóölduvatni (3024) og Langavatni (1990).
Stærsti urriði sumarsins veiddist í Skálavatni. Hann var 8,2 kg (16,4 pd).
Í Ónefndavatni, Hraunvötnum og Litlasjó fengust nokkrir 10-11 pd urriðar. Stærsta bleikjan var 2,5 kg (5 pd) og veiddist í Breiðavatni.
Á netaveiðitímanum 25. ágúst til 17. september fengust 1183 fiskar á stöng og 9243 í net.
Smelltu á krækjurnar hér fyrir neðan og skoðaðu nánar veiði og myndir af afla og veiðimönnum.