Veiðin

Veiðisaga VeiðivatnaVeiðisaga landmannaSeiðasleppingar

Silungsveiðin í Veiðivötnum
Veiði hefur verið skráð reglulega frá árinu 1965. Fyrir þann tíma eru aflatölur mjög óljósar en oft var veiðin mikil og veiðisögurnar stórkostlegar.

Töluverðar sveiflur hafa alla tíð verið á veiðinni. Frá 1965 hefur veiðin sveiflast frá 600 fiskum 1966 upp í mest um 19 þúsund fiska árið 1977. Árið 1965 veiddust 9300 urriðar, þar af 8552 í Stóra Fossvatni. Eftir lágmarkið í veiðinni 1966 var veiðin um 3-4 þúsund fiskar árlega fram til ársins 1973. Frá árinu 1974 varð mikil aflaaukning sem náði hámarki árið 1977, þegar 18885 fiskar veiddust, þar af 15760 urriðar (83% veiðinnar) í Stóra Fossvatni.
Aflinn úr Stóra Fossvatni var uppistaðan í heildarveiðinni árin 1974-78. Þá var Stóra Fossvatn þéttsetið af smáum urriða. Eftir viðkomubrest í Stóra Fossvatni minnkaði veiðin þar og féll þá heildarveiðin niður í 3-4 þúsund fiska í byrjun 9. áratugarins. Um miðjan 9. áratuginn jókst veiðin jafnt og þétt einkum vegna aukinnar veiði í stóru vötnunum, Litlasjó, Grænavatni, Ónýtavatni og Snjóölduvatni. Þá aukningu má að verulegu leiti rekja til seiðasleppinga í þessi vötn. Einnig varð veruleg aukning í bleikjuveiði í Snjóölduvatni, Bjallavötnunum og Skyggnisvatni. Bleikjan veiddist einkum í net á haustin. Árið 1988 var bleikja um 40% heildaraflans. Bleikja var 10% heildarveiðinnar 1991-1992 en aðeins 3% (322 bleikjur) árið 1993. Flestar bleikjur veiddust í Skyggnisvatni og Langavatni þessi ár.

Samanburður á fjölda urriða og bleikju í stangveiðinni 1998-2018 . Tekið saman af Erni Óskarssyni
Samanburður á fjölda urriða og bleikju í stangveiðinni 1998-2018 . Tekið saman af Erni Óskarssyni

Árin 1990 til 2000 var stangveiðin 7000-11000 fiskar en eftir 2000 hefur veiðin aukist umtalsvert og er nú 14000-37000 fiskar á ári. Uppistaðan í veiðinni síðustu árin hefur að jafnaði verið stór og fallegur urriði úr Litlasjó. Einnig hefur veiðst vel í Hraunvötnum og Ónýtavatni. Grænavatn hefur sömuleiðis gefið vaxandi afla. Veiði á urriða hefur minnkað en bleikjuveiði aukist í ýmsum af neðri vötnunum svo sem Nýjavatni, Langavatni, Eskivatni, Snjóölduvatni, Breiðavatni og nú síðast í Skálavatni. Áður voru þessi vötn gjöful og urriðinn stór og feitur.

Veiðin náði hámarki árin 2009 og 2010 en síðan hefur veiðin minnkað, einkum vegna minni veiði í Litlasjó. Allra síðustu árin hefur veiði aukist aftur og sumarið 2019 var þriðja besta veiðisumarið í Veiðivötnum. Bleikjuveiðin hefur aukist á sama tíma og hefur síðustu ár verið meira en helmingur af heildar stangveiðinni. Bleikjan hefur farið smækkandi í vötnum eins og Snjóölduvatni og Nýjavatni en allra síðustu ár virðist meðalþyngd bleikju verið að aukast í Langavatni og Eskivatni.

Stangveiði í Litlasjó
Talsverðar sveiflur hafa verið í veiðinni í Litlasjó undanfarin ár. Erfitt er að segja til um ástæðuna. Ein skýring gæti verið að fæðuframboð urriðans stjórni því hversu nærri landi fiskurinn er og því í misgóðu kastfæri fyrir stangveiðimenn. Líklega er urriðinn meira á ferðinni upp við land þegar nóg er af hornsílum en heldur sig lengra úti þegar hann er í bobbaáti

Á síðari árum hafa um 60% -80% veiðinnar komið í stangveiði og um 20% – 40% í net. Þetta segir ekki alla söguna því oftast fást stærri og þyngri fiskar í netin. Meðalþyngd urriða í veiðinni hefur oftast verið um 1 kg. en hefur heldur vaxið undanfarin ár. Meðalþyngdin er misjöfn á milli vatna en hefur verið hæst í Grænavatni undanfarin ár. Litlisjór og Hraunvötn koma þar skammt á eftir.

Meðalþyngd stangveiddra fiska í Veiðivötnum
Meðalþyngd stangveiddra fiska í Veiðivötnum. Tekið saman af Erni Óskarssyni 

Bleikja veiðist frekar í net en á stöng en undanfarin ár hafa mun fleirri urriðar veiðst á stöng en í net. Á árunum 1992-1996 veiddust um 65% urriðanna á stöng og 35% í net. Sumarið 1993 veiddust 4724 fiskar (6772 kg) í net. Sama ár veiddust 5312 fiskar (6596 kg) á stöng. Þá var veitt á 3070 stangir. Að meðaltali veiðust 1,5 – 2,0 fiskar á stöng á dag. Sumir fiska vel en aðrir fá lítið.