Bleikju varð fyrst vart í Snjóölduvatni árið 1972 en árið 1983 er hún einnig í Skyggnisvatni, Breiðavatni, Nýjavatni og Langavatni. Í Veiðivötn hefur bleikja gengið úr Tungnaá eftir kvíslunum. Á 7. áratugnum var bleikju sleppt í vötn á Skaftártungnaafrétti og barst hún þaðan út í Tungnaá. Nú er bleikja í 11 vötnum á Veiðivatnasvæðinu. Það er nánast öll vötn sem hafa samgang við Tungnaá nema Fossvötnin. Fossinn neðan við Litla-Fossvatn er hindrun á útbreiðslu bleikjunar. Bleikja hefur fundist í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Austurbjallavatni, Krókspolli, Skyggnisvatni, Kvíslarvatni, Eskivatni, Langavatni, Tjaldvatni, Stóra-Skálavatni og Hamrafellsvatni.

Erfitt er að skýra hvernig bleikja hefur borist í Skálavatn sem ekki hefur neitt sýnilegt úrrennsli. Hugsanlega hafa fuglar borið smáseiði úr Tjaldvatni en þar er nóg af smábleikju og stutt á milli vatnanna. Ef til vill eru hefur hún fundið sér leið neðanjarðar um
sprungur.

Í Austurbjallavatni og Hamrafellsvatni er bleikjan smávaxin og horuð en víða annarsstaðar er ástand hennar gott. Bleikja er einráð í Austurbjallavatni og Tjaldvatni en er annars í sambýli og samkeppni við urriða. Urriðinn hefur víða orðið undir í þeirri samkeppni t.d í Langavatni og Eskivatni. Undanfarin ár hefur veiðiálag á bleikju í þessum vötnum verið aukið með netaveiði og urriðaseiðum sleppt til að freista þess að rétta við urriðastofninn.
Fiskar í Veiðivötnum | Urriði | Bleikja | Hornsíli |