Veiðivötn 2024 – veiðileyfi og gisting

Sími í Veiðivötnum er 864-9205. / netfang: ampi@simnet.is

Öll hús eru upppöntuð í sumar.

Laust er í svefnpokapláss á loftinu í skálanum og pláss fyrir tjöld eða hjólhýsi / tjaldvagna fyrir þá sem þess óska.

Enn eru til veiðileyfi síðari hluta júlí og í ágúst.

Veiðifélag Landmannaafréttar hefur gefið út verðskrá í Veiðivötnum fyrir sumarið 2024. (sjá töflu).
Stangveiðitímabilið 2024 byrjar þriðjudaginn 18. júní kl. 15:00 og líkur þriðjudaginn 20. ágúst kl. 15:00.
Netaveiðin er frá 23 ágúst til 15 september.

Á síðasta veiðisumri ákvað stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar að bjóða upp á nýtt fyrirkomulag í veiðileyfasölu í Veiðivötnum. Aftur verður boðið uppá dagleyfi í Veiðivötnum sumarið 2024.
Á tímabilinu 1. júlí – 15. sept. verður hægt að kaupa dagsleyfi án gistingar í Veiðivötnum. Leyfin gilda frá kl. 7 að morgni og til miðnættis.
Leyfin þarf að panta fyrirfram deginum áður og þarf að ganga frá greiðslu um leið og pantað er. Verð á veiðileyfi verður samkvæmt útgefinni verðskrá fyrir veiðileyfi í júlí-sept kr. 13000- á stöng á dag. Viðkomandi fær sendar banka upplýsingar og greiðir veiðileyfið og sendir jafnframt upplýsingar um tegund, lit og númer á bílnum sem sem komið er á. Þessar upplýsingar þurfa að berast í síðasta lagi kvöldið fyrir komu í Veiðivötn.
Veiðimaður má byrja að veiða kl. 7 en kemur svo við í Varðbergi og sækir veiðileyfið um kl. 9 -10 um morguninn.

Skilar veiðileyfinu útfylltu við brottför.

Aðbúnaður í húsum.

Hús og önnur gistiaðstaða er mjög góð í Veiðivötnum. Rennandi vatn er í öllum húsum og þau eru öll tengd rafmagni. Í hverju húsi eru 2 hellur, tenglar, ljós og rafmagnsofnar. Salerni eru í öllum húsum nema Gamla Dvergasteini. Eins og áður þurfa gestir að hafa með sér potta, pönnur, hnífapör og annan borðbúnað
Mjög gott símasamband (3G) er víðast hvar á Veiðivatnasvæðinu. 

Sjá nánar: http://veidivotn.is/wp-admin/post.php?post=34&action=edit

Lokatölur úr vötnum sunnan Tungnaár

Veiðitölur fyrir sumarið 2023.
Alls veiddist 1591 fiskur í vötnum sunnan Tungnaár sumarið 2023, 1095 bleikjur og 496 urriðar. Flestir fiskar veiddust í Frostastaðavatni, 875, mest smábleikja.
Stærsti fiskurinn var 5 pd urriði úr Ljótapolli. 
Mesta meðalþyngdin var í Dómadalsvatni 2,6 pd.

Í Sauðafellsvatni voru 49 fiskar skráðir, en erfiðlega gékk að fá upplýsingar um afla frá veiðimönnum.

Veiðitímanum 2023 er lokið

Veiðivertíðinni í Veiðivötnum lauk sunnudaginn 17. september kl.15. Sumarið var einstaklega gott uppi á hálendinu og mikil veiði. 

Alls veiddust 33798 fiskar á stangveiðitímabilinu, 15415 urriðar og 9140 bleikjur. Þetta var þriðja mesta veiði frá upphafi skráningar í Veiðivötnum. Aðeins 2009 og 2010 voru betri.

Á stangveiðitímanum fengust 23372 fiskar, 14285 urriðar og 9087 bleikjur. Þetta er talsvert betri veiði en undanfarin sumur. Á stangveiðitímanum veiddist mest í Litlasjó. Þar kom 6101 urriði á land. Urriðaveiði var einnig góð í Stóra-Fossvatni, Hraunvötnum og í Ónýtavatni. Mest veiddist af bleikju í Snjóölduvatni (3024) og Langavatni (1990). 

Jafet með stærsta fisk sumarsins 8,2 kg (16,4 pd). 

Stærsti urriði sumarsins veiddist í Skálavatni. Hann var 8,2 kg (16,4 pd). 

Í Ónefndavatni, Hraunvötnum og Litlasjó fengust nokkrir 10-11 pd urriðar. Stærsta bleikjan var 2,5 kg (5 pd) og veiddist í Breiðavatni.

Á netaveiðitímanum 25. ágúst til 17. september fengust 1183 fiskar á stöng og 9243 í net. 

Smelltu á krækjurnar hér fyrir neðan og skoðaðu nánar veiði og myndir af afla og veiðimönnum.

Veiðitölur úr Veiðivötnum 2023

Myndir af veiði- og veiðimönnum sumarið 2023

Samanburður á veiði í Veiðivötnum árin 1965 til 2023.

Veiðivötn 2023

Veiði í Veiðivötnum hófst sunnudaginn 18. júní kl. 15:00. Öll veiðileyfi eru uppseld í júní en hægt að fá leyfi í júlí og ágúst (sjá eldri frétt).

Svæðið er komið í sumarbúning. Ís er löngu horfinn af vötnunum og síðustu skaflarnir að bráðna. Vatnshæð í efri vötnum er nærri meðallagi. 

Vegir eru flestir greiðfærir og vöðin yfir árnar eru mjög góð. Fært er í Skyggnisvatn en aðeins fyrir fjórhjóladrifs bíla. Leiðin í Veiðivötn er sem fyrr aðeins fær jeppum og jepplingum.

Sökum snjóleysis verða veiðimenn að hafa með sér ís og góð kælibox undir veiðina, ætli þeir sér að varðveita aflann. Skaflinn góði í Miðmorgunsöldu er horfinn (sjá mynd frá 22. júní hér að ofan).

Sem fyrr eru veiðimenn og aðrir gestir í Veiðivötnum hvattir til að ganga vel um viðkvæma náttúru vatnasvæðisins, halda sig á vegslóðum og hirða upp eftir sig allt rusl.

Hermannsvík í Litlasjó 13. júní 2023.