Lokatölur úr veiði í Veiðivötnum 2024

Allri veiði í Veiðivötnum lauk 15. september. Alls veiddust 27963 fiskar á tímabilinu. Þar af fengust 12568 urriðar og 15395 bleikjur. Þetta eru nokkuð lægri tölur en undanfarin ár. Veðrið í sumar spilar þar eflaust eitthvað inni, frekar kalt og á köflum hvasst. Fáir sólardagar. Einnig var netaveiðin óvenju léleg miðað við undanfarin ár. Sjá töflur og gröf.

Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk þriðjudaginn 20. ágúst.
Alls fengust 20321 fiskur, 10595 urriðar og 9726 bleikjur. Veiðin var ekki eins góð og sumarið 2023 sem var mjög gott veiðiár. Munar þar mestu um lakari veiði í Litlasjó sumarið 2024.
Leiðinlegu veðri í júlí og ágúst má kenna um að hluta, en einnig virðist nóg fæða í vötnunum og næringarástand fiskanna mjög gott víðast hvar þetta árið.
Veiðin var þó mun betri en sumrin 2022 og 2021.
Flestir urriðar komu á land í Litlasjó, 4368 fiskar, en Stóra Fossvatn var næst með 2086 fiska.
Af bleikjuvötnunum var mestur afli, 3892 fiskar í Snjóölduvatni og 2255 bleikjur í Langavatni.

Netaveiði veiðirétthafa stóð frá 23. ágúst til 15. september.
Á netaveiðitímanum var einnig leyfð veiði á stöng.
Í netin komu 6765 fiskar, þar af 1100 urriðar úr Litlasjó (leyfð veiði í innri hluta) og 5665 bleikjur úr bleikjuvötnum.
Stangveiði á netatímanum var frekar dræm þessar fjórar vikur. Aðeins fengust 877 fiskar, þar af 4 bleikjur.

Veiðitölur úr Veiðivötnum 2024

Myndir af veiði og veiðimönnum sumarið 2024

Stærsti fiskur sumarsins var 6.22 kg. urriði sem veiddist í Hraunvötnum.
Veiðimaðurinn er Þröstur Þorláksson.

Í sumar hafa safnast upp hlutir sem hafa orðið eftir í Veiðivötnum.
Á síðunni “óskilamunir í Veiðivötnum” eru myndir af hlutunum.