Veiðifélag Landmannaafréttar

Veiðifélag Landmannaafréttar var stofnað árið 1965.

Veiðifélagi Landmannaafréttar 2024. – erindi til veiðirétthafa

Ágætu veiðiréttarhafar í vötnum á Landmannaafrétti.
Hér koma helstu upplýsingar um starfsemi Veiðifélags Landmannaafréttar sumarið 2024 og nokkur atriði til
minnis fyrir veiðiréttarhafa, en fyrirkomulag mun haldast að mestu óbreytt frá síðasta ári.
“Heimaleyfi í Veiðivötum” er: 2 netalagnir (22 faðmar hvor) ásamt stöng í tvo sólahringa. Vilji rétthafi breyta netum í stangveiði, þá koma tvær stangir í tvo daga fyrir bæði netin. Stjórn félagsins vill skerpa á skilningi á hvað felst í heimaleyfi. Heimaleyfi innifelur í sér tvær 22 faðma lagnir í tvo daga, eða fjórar 22 faðma lagnir í einn dag.
Einnig er heimil veiði með einni stöng í tvo daga eða tvær stangir í einn dag. Leyfishöfum er í sjálfsvald sett hvort þeir nýti stöngina en verð heimaleyfis innifelur bæði leyfi til neta- og stangveiðinnar. Þessi leyfi skerðast ekkert vegna aukalagna s.s. skyldulagna í Snjóölduvatni eða aukalagna í öðrum bleikjuvötnum sem verið er að hvetja til grisjunar í.
Þá er öllum íbúum á svæði fyrrum Holta- og Landsveitar ásamt íbúum jarðanna Hóla og Næfurholts heimil veiði með einni stöng í einn dag (íbúaleyfi). Einnig geta sömu aðilar veitt í vötnum sunnan Tungnaár með sömu kjörum. Athugið, að einungis rétthafi íbúaleyfis getur nýtt sér það til veiða.
Á síðasta aðalfundi var samþykkt að bjóða greiðslu fyrir netaleyfi veiðiréttarhafa kr. 30.000 fyrir hvert leyfi.
Þeir sem hyggjast nýta sér það eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna undirrituðum það fyrir 1. nóvember n.k.
Ef veiðiréttarhafi framselur öðrum netaleyfi sitt skal hann láta viðkomandi hafa skriflegt leyfi sem hann afhendir síðan veiðivörðum við komu til Veiðivatna.
Almenn stangveiðileyfi og heimaleyfi í Veiðivötn eru seld í síma 864-9205 hjá Bryndísi. Veiðitilhögun verður
eftirfarandi:
Stangveiði er leyfð í öllum vötnum, þó er aðeins leyfð fluguveiði í Litla- og Stóra-Fossvatni.
Netaveiði er leyfð í eftirtöldum vötnum: Breiðavatn, Nýjavatn, Krókspollur, Snjóölduvatn, Eskivatn, Langavatn,
Tjaldvatn, Skyggnisvatn, Litli-Sjór (ath. friðaður að hluta), og Austurbjallavötn. Net skulu vera eins og verið hefur 2” á legg nema í Litla-Sjó skal nota 3” á legg.
Leggja má aukalögn í Nýjavatn, Langavatn og Eskivatn með möskvastærð allt að 30 mm á legg. Þá skal samkvæmt ráðleggingu fiskifræðings hafa 40mm á legg á netum í Snjóölduvatn og Breiðavatn. Veiðifélagið
afhendir net sem nota skal í þessi vötn. Hvert heimaleyfi heimilar eina lögn í einn sólarhring í Litla-Sjó.
Samkvæmt samþykkt á síðasta aðalfundi veiðifélagsins er nytjaréttarhöfum gerð skylda að leggja net í Snjóölduvatn til grisjunar, skv. framansögðu, og er það gert til þess að vinna gegn vaxandi stofni bleikju í vatninu. Hér með er biðlað til nytjaréttarhafa að taka þátt í þeirri baráttu að vinna gegn uppgangi bleikjunnar í vötnum sem tengjast Tungnaá.
Almenn stangveiði hefst þann 18. júní og stendur til 20. ágúst, netaveiði hefst síðan kl. 15:00 þann 23. ágúst og stendur til 15. september kl. 15:00.
Verð: Almenn veiðileyfi kosta nú kr. 13.000 alla daga vikunnar, þó eru júníleyfi seld á kr. 15.000 fyrir hverja stöng. Fullt heimaleyfi er selt á kr. 5.000 og íbúaleyfi á kr. 2.000 fyrir hverja stöng í einn dag. Gisting í húsum
kosta kr. 21.000 til kr. 26.000 eftir stærð húsa. Í stóra skálanum er seld gisting í svefnpokaplássi kr. 5.000, stóri salur kr. 30.000, litla herbergi 18.000. Tjöld og húsbílar greiða kr. 5.000 að viðbættum kr. 2.000 ef rafmagn er nýtt. Veiðiréttarhafar fá 50% afslátt á gistingu á netaveiðitímabilinu og er veiðiréttarhöfum bent á að gistingu
og veiðileyfi þarf að panta hjá Bryndísi í síma 864-9205.
Rekstur svæðisins sunnan Tungnaár er með sama hætti og verið hefur. Stangveiðileyfi eru seld hjá verði í Landmannahelli og kostar dagurinn kr. 6.000. Hellismenn ehf munu sjá um vörslu á svæðinu. Nytjaréttarhöfum
er heimil netaveiði í Frostastaðavatni án gjalds og eru veiðimenn hvattir til að nýta það sem best. Greiða þarf fyrir stangveiðileyfi í Frostastaðavatni. Netaleyfi eru afgreidd hjá Hellismönnum við Landmannahelli.
Sala veiðileyfa í Sauðafellsvatn fer fram á heimasíðunni: https://saudafellsvatn.is/ og kostar leyfið kr. 6.000.
Ef frekari upplýsinga er óskað þá vinsamlegast hafið samband við undirritaðan.

Með bestu kveðju, Skarði,11. júní 2024.
Erlendur Ingvarsson.

Núverandi stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar:

Erlendur Ingvarsson, Skarði, formaður
Aðrir í stjórn:
Eiður Kristinsson
Jóhanna Hlöðversdóttir
Stefán Þór Sigurðsson
Sigríður Arndís Þórðardóttir

Samþykkt
Fyrir Veiðifélag Landmannaafréttar, Rangárvallasýslu

1. gr.
Félagið heitir Veiðifélag Landmannaafréttar og starfar á grundvelli gildandi laga um lax og silungsveiði. Heimili og varnarþing er í Rangárvallasýslu.
2. gr.
Aðild að félginu eiga lögbýli í Holta- og Landsveit, auk Hóla og Næfurholts í Rangárvallahreppi, skv. arðskrá félagsins.
3. gr.
Félagssvæðið tekur yfir öll vötn á Landmannaafrétti og aðrennsli þeirra svo og frárennsli þeirra að Tungnaá, að undanskildu Þórisvatni og Kirkjufellsvatni.
4. gr.
Verkefni félagsins er:
a) Að viðhalda veiði í þeim vötnum, sem þegar er veiði í.
b) Að rækta fisk í þeim vötnum, sem fisklaus eru, en talin eru vel fallin til fiskiræktar. Með því að stilla veiði í hóf, með seiðasleppingum og flutningi á lifandi silung milli vatna.
c) Að sjá um, að félagsmenn hafi aðgang að ákveðnum veiðivötnum og megi stunda þar veiði samkvæmt þeim reglum, er stjórn veiðifélagsins setur þar um og samþykktar hafa verið á almennum fundi í félaginu.
d) Rekstur eigna.
e) Sala veiðileyfa.
f) Gróður og náttúruvernd.
5. gr.
Enginn má stunda veiði á félagssvæðinu nema með leyfi félagsstjórnar. Veiðimönnum skal látið í té skriflegt veiðileyfi og er þeim skylt að vera með það á sér meðan þeir stunda veiðina og sýna það, ef þess er óskað. Í leyfinu skal tekið fram um veiðistað, veiðitíma og veiðitæki og með hvaða kjörum leyfið er veitt.
6. gr.
a) Stjórn félagsins skipa fimm menn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ganga þeir úr stjórninni á víxl þannig að einn skal ganga úr stjórn eftir eitt ár, tveir eftir tvö ár og hinir eftir 3 ár, og helst svo sama röð framvegis.
Varamenn í stjórn skulu vera fimm og kosnir á sama hátt. Skoðunarmenn reikninga skulu vera tveir og kosnir til tveggja ára. Sami háttur skal hafður um kosningu varaskoðunarmanna.
b) Stjórnin skiptir með sér verkum árlega að loknum aðalfundi. Formaður skal vera aðalframkvæmdastjóri félagsins, sjá um reikninga og fjárreiður þess og boða til stjórnarfunda, ef hann eða aðrir stjórnarmenn óska eftir.
c) Formaður ræður veiðiverði og aðra starfsmenn í samráði við stjórn.
d) Aðalfundur skal haldinn í apríl eða maí ár hvert. Á aðalfundi gefur stjórnin skýrslu um starfsemi liðins árs og leggur fram starfsáætlun fyrir næsta ár. Þá skal hún leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins.
7. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórninni ber að halda gerðarbækur þar sem færðir eru reikningar félagsins, svo og samþykktir þess og fundargerðir.
8. gr.
Árlega skal aðalfundur taka ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsaárinu.
9. gr.
Samþykkt þessari má breyta á aðalfundi.