Lokatölur úr veiði í Veiðivötnum 2024

Allri veiði í Veiðivötnum lauk 15. september. Alls veiddust 27963 fiskar á tímabilinu. Þar af fengust 12568 urriðar og 15395 bleikjur. Þetta eru nokkuð lægri tölur en undanfarin ár. Veðrið í sumar spilar þar eflaust eitthvað inni, frekar kalt og á köflum hvasst. Fáir sólardagar. Einnig var netaveiðin óvenju léleg miðað við undanfarin ár. Sjá töflur og gröf.

Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk þriðjudaginn 20. ágúst.
Alls fengust 20321 fiskur, 10595 urriðar og 9726 bleikjur. Veiðin var ekki eins góð og sumarið 2023 sem var mjög gott veiðiár. Munar þar mestu um lakari veiði í Litlasjó sumarið 2024.
Leiðinlegu veðri í júlí og ágúst má kenna um að hluta, en einnig virðist nóg fæða í vötnunum og næringarástand fiskanna mjög gott víðast hvar þetta árið.
Veiðin var þó mun betri en sumrin 2022 og 2021.
Flestir urriðar komu á land í Litlasjó, 4368 fiskar, en Stóra Fossvatn var næst með 2086 fiska.
Af bleikjuvötnunum var mestur afli, 3892 fiskar í Snjóölduvatni og 2255 bleikjur í Langavatni.

Netaveiði veiðirétthafa stóð frá 23. ágúst til 15. september.
Á netaveiðitímanum var einnig leyfð veiði á stöng.
Í netin komu 6765 fiskar, þar af 1100 urriðar úr Litlasjó (leyfð veiði í innri hluta) og 5665 bleikjur úr bleikjuvötnum.
Stangveiði á netatímanum var frekar dræm þessar fjórar vikur. Aðeins fengust 877 fiskar, þar af 4 bleikjur.

Veiðitölur úr Veiðivötnum 2024

Myndir af veiði og veiðimönnum sumarið 2024

Stærsti fiskur sumarsins var 6.22 kg. urriði sem veiddist í Hraunvötnum.
Veiðimaðurinn er Þröstur Þorláksson.

Í sumar hafa safnast upp hlutir sem hafa orðið eftir í Veiðivötnum.
Á síðunni “óskilamunir í Veiðivötnum” eru myndir af hlutunum.

Veitt í klak

Dagana 27. – 28. september kom vaskur hópur veiðimanna inn í Veiðivötn og veiddi urriða í klak. Þetta er gert á hverju hausti í lok september.

Hreinsað úr neti í Fyrstu vík í Litlasjó 27. september 2024


Að þessu sinni gékk veiðin mjög vel. Veitt var á þremur stöðum í Litlasjó og Stóra Hraunvatni.
Teknar voru 40 hrygnur og 9 hængar. Fimm til sex punda fiskar gefa bestan árangur í klakinu.

Klakveiðimenn efst í Stóra Hraunvatni


Fiskarnir eru fluttir til byggða og klak fer fram í eldisstöðinni í Götu í Holta- og Landsveit.
Seiðin eru alin í 1-2 ár í stöðinni fyrir sleppingu í Veiðivötn. Til að viðhalda jöfnum og góðum fiskistofnum í urriðavötnum með lök hrygningaskilyrði þá eru seiðasleppingar nauðsynlegar. Bleikjan bjargar sér sjálf og engin þörf fyrir sleppingu bleikjuseiða.
Myndirnar voru teknar 27. september.



Tvær myndavélar

Nú hafa verið settar upp og teknar í notkun tvær nýjar og fullkomnar myndavélar í Veiðivötnum.
Önnur er á Skemmunni þar sem gamla vélin var. Hin er staðsett á nýja húsinu Bjarkalundi. Saman ná þær yfir allt svæðið þar sem húsin standa.

Nýju vélarnar eru í miklu betri gæðum en sú gamla og mun gagnast vel til að vöktunar allan ársins hring.
Einnig gefa þær gott yfirlit yfir veður og landslag.

Veiðivötn 2024 – veiðileyfi og gisting

Sími í Veiðivötnum er 864-9205. / netfang: ampi@simnet.is

Öll hús eru upppöntuð í sumar.

Laust er í svefnpokapláss á loftinu í skálanum og pláss fyrir tjöld eða hjólhýsi / tjaldvagna fyrir þá sem þess óska.

Enn eru til veiðileyfi síðari hluta júlí og í ágúst.

Veiðifélag Landmannaafréttar hefur gefið út verðskrá í Veiðivötnum fyrir sumarið 2024. (sjá töflu).
Stangveiðitímabilið 2024 byrjar þriðjudaginn 18. júní kl. 15:00 og líkur þriðjudaginn 20. ágúst kl. 15:00.
Netaveiðin er frá 23 ágúst til 15 september.

Á síðasta veiðisumri ákvað stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar að bjóða upp á nýtt fyrirkomulag í veiðileyfasölu í Veiðivötnum. Aftur verður boðið uppá dagleyfi í Veiðivötnum sumarið 2024.
Á tímabilinu 1. júlí – 15. sept. verður hægt að kaupa dagsleyfi án gistingar í Veiðivötnum. Leyfin gilda frá kl. 7 að morgni og til miðnættis.
Leyfin þarf að panta fyrirfram deginum áður og þarf að ganga frá greiðslu um leið og pantað er. Verð á veiðileyfi verður samkvæmt útgefinni verðskrá fyrir veiðileyfi í júlí-sept kr. 13000- á stöng á dag. Viðkomandi fær sendar banka upplýsingar og greiðir veiðileyfið og sendir jafnframt upplýsingar um tegund, lit og númer á bílnum sem sem komið er á. Þessar upplýsingar þurfa að berast í síðasta lagi kvöldið fyrir komu í Veiðivötn.
Veiðimaður má byrja að veiða kl. 7 en kemur svo við í Varðbergi og sækir veiðileyfið um kl. 9 -10 um morguninn.

Skilar veiðileyfinu útfylltu við brottför.

Aðbúnaður í húsum.

Hús og önnur gistiaðstaða er mjög góð í Veiðivötnum. Rennandi vatn er í öllum húsum og þau eru öll tengd rafmagni. Í hverju húsi eru 2 hellur, tenglar, ljós og rafmagnsofnar. Salerni eru í öllum húsum nema Gamla Dvergasteini. Eins og áður þurfa gestir að hafa með sér potta, pönnur, hnífapör og annan borðbúnað
Mjög gott símasamband (3G) er víðast hvar á Veiðivatnasvæðinu. 

Sjá nánar: http://veidivotn.is/wp-admin/post.php?post=34&action=edit