Veiðivötn 2025

Veiði í Veiðivötnum hefst 18. júní 2025 kl. 15:00.
Verðskrá fyrir sumarið 2025 er komin á Veiðivatnasíðuna.


Eins og undanfarin ár mun Bryndís senda út netpóst í janúar og febrúar til fastra kúnna sem síðasta sumar fengu vilyrði fyrir veiðileyfum eða gistiplássi í Veiðivötnum.



Viðkomandi þarf síðan að staðfesta gistinu og leyfi og greiða fyrir 1. mars 2025.


Listi yfir laus veiðileyfi eða gistipláss verður birtur á Veiðivatnavefnum www.veidivotn.is um miðjan mars og opnað verður fyrir almenna sölu á veiðileyfum og húsplássi í byrjun apríl. 

Verðskrá fyrir 2025

Stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar hefur samþykkt meðfylgjandi verðskrá fyrir árið 2025.

Veiði er frí fyrir börn 13 ára og yngri.

Afbókunarskilmálar eru þeir að ef afbókað er seinna en einni viku fyrir komudag fæst aðeins 50% upphæðarinnar pöntunar endurgreidd.

Lokatölur úr veiði í Veiðivötnum 2024

Allri veiði í Veiðivötnum lauk 15. september. Alls veiddust 27963 fiskar á tímabilinu. Þar af fengust 12568 urriðar og 15395 bleikjur. Þetta eru nokkuð lægri tölur en undanfarin ár. Veðrið í sumar spilar þar eflaust eitthvað inni, frekar kalt og á köflum hvasst. Fáir sólardagar. Einnig var netaveiðin óvenju léleg miðað við undanfarin ár. Sjá töflur og gröf.

Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk þriðjudaginn 20. ágúst.
Alls fengust 20321 fiskur, 10595 urriðar og 9726 bleikjur. Veiðin var ekki eins góð og sumarið 2023 sem var mjög gott veiðiár. Munar þar mestu um lakari veiði í Litlasjó sumarið 2024.
Leiðinlegu veðri í júlí og ágúst má kenna um að hluta, en einnig virðist nóg fæða í vötnunum og næringarástand fiskanna mjög gott víðast hvar þetta árið.
Veiðin var þó mun betri en sumrin 2022 og 2021.
Flestir urriðar komu á land í Litlasjó, 4368 fiskar, en Stóra Fossvatn var næst með 2086 fiska.
Af bleikjuvötnunum var mestur afli, 3892 fiskar í Snjóölduvatni og 2255 bleikjur í Langavatni.

Netaveiði veiðirétthafa stóð frá 23. ágúst til 15. september.
Á netaveiðitímanum var einnig leyfð veiði á stöng.
Í netin komu 6765 fiskar, þar af 1100 urriðar úr Litlasjó (leyfð veiði í innri hluta) og 5665 bleikjur úr bleikjuvötnum.
Stangveiði á netatímanum var frekar dræm þessar fjórar vikur. Aðeins fengust 877 fiskar, þar af 4 bleikjur.

Veiðitölur úr Veiðivötnum 2024

Myndir af veiði og veiðimönnum sumarið 2024

Stærsti fiskur sumarsins var 6.22 kg. urriði sem veiddist í Hraunvötnum.
Veiðimaðurinn er Þröstur Þorláksson.

Í sumar hafa safnast upp hlutir sem hafa orðið eftir í Veiðivötnum.
Á síðunni “óskilamunir í Veiðivötnum” eru myndir af hlutunum.

Veitt í klak

Dagana 27. – 28. september kom vaskur hópur veiðimanna inn í Veiðivötn og veiddi urriða í klak. Þetta er gert á hverju hausti í lok september.

Hreinsað úr neti í Fyrstu vík í Litlasjó 27. september 2024


Að þessu sinni gékk veiðin mjög vel. Veitt var á þremur stöðum í Litlasjó og Stóra Hraunvatni.
Teknar voru 40 hrygnur og 9 hængar. Fimm til sex punda fiskar gefa bestan árangur í klakinu.

Klakveiðimenn efst í Stóra Hraunvatni


Fiskarnir eru fluttir til byggða og klak fer fram í eldisstöðinni í Götu í Holta- og Landsveit.
Seiðin eru alin í 1-2 ár í stöðinni fyrir sleppingu í Veiðivötn. Til að viðhalda jöfnum og góðum fiskistofnum í urriðavötnum með lök hrygningaskilyrði þá eru seiðasleppingar nauðsynlegar. Bleikjan bjargar sér sjálf og engin þörf fyrir sleppingu bleikjuseiða.
Myndirnar voru teknar 27. september.