All posts by usert4ce9et6h

Gjaldskrá fyrir sumarið 2020

Veiðivötn

Gjaldskrá á veiðileyfum og gistingu (hús, svefnpokapláss í skála, tjaldstæði og húsbílar/tjaldvagnar) í Veiðivötnum fyrir sumarið 2020.

Verð á veiðileyfum er óbreytt frá fyrra ári en gistipláss í húsum hækkar lítillega.
Eins og undanfarin ár munu fastir kúnnar sem þegar hafa fengið vilyrði fyrir veiðileyfum eða gistiplássi, fá boð um greiðslu á næstu vikum. Greiðsla þarf að berast fyrir 1. mars.
Ef einhver telur sig eiga pöntun og hefur ekkert heyrt frá Veiðifélaginu (Bryndísi) fyrir miðjan febrúar þá þarf hann að hafa samband í síma 864-9205 eða á netfangið ampi@simnet.is
Laus veiðileyfi eða gistipláss fara á vefinn um miðjan mars og fara í almenna sölu í byrjun apríl. Nánar auglýst síðar.

Vötn sunnan Tungnaár

Veiði hefst þann 18. júní og lýkur 15. september.
Hvert leyfi kostar kr. 3.500 /stöng/ dag og gildir í öllum vötnum sunnan Tungnaár nema í Sauðafellsvatni.
Veiðileyfi eru seld í Landmannahelli og þarf ekki að panta fyrirfram.
Hægt er að panta gistingu í Landmannahelli.

Nánari upplýsingar um vötn sunnan Tungnaár

Landmannahellir

Sauðafellsvatn

Veiði í Sauðafellsvatni hefst þann 18. júní og lýkur 15. september. Hvert leyfi kostar kr. 5000 /stöng/ dag.
Leyfi eru seld á heimasíðunni saudafellsvatn.is .  Veiðiskýrslum frá Sauðafellsvatni er einnig skilað inn á þeirri vefsíðu.

Vefsíða um Sauðafellsvatn

Lokatölur úr Veiðivötnum

Lokatölur frá veiðitímabilinu í Veiðivötnum eru nú komnar á vefinn.
Sunnudaginn 15. september lauk veiði í Veiðivötnum. Stangveiðitímabilinu lauk 21. ágúst en veitt var í net og stöng 23. ágúst til 15. september.

Alls veiddust 30592 fiskar á veiðitímabilinu. Þetta er því þriðja besta veiðitímabilið í sögu Veiðivatna.  Sjá samanburð.
Heildarafli stangveiddra fiska var 21063 fiskar, 10328 urriðar og 10736 bleikjur.

Flestir stangveiddir fiskar komu á land úr Snjóölduvatni, 5650 og úr Litlasjó fengust 4865 fiskar.
Þyngsti fiskurinn er 16,06 pd urriði úr Grænavatni, sem kom á land í síðustu veiðivikunni. Aldrei hafa jafnmargir stórfiskar veiðst í Veiðivötnum eins og í sumar. Stærstir voru þeir í Grænavatni en einnig veiddust óvenju stórir urriðar í Hraunvötnum og í Skálavatni. 

Í netin fengust 9529 fiskur, 1755 urriðar og 7774 bleikjur.

Mynd: Fossvötn á góðum síðsumarsdegi. Ljósm: Örn Óskarsson

Veiðitölur – sjá nánar

Myndir af veiði og veiðimönnum 2019

Bleikja í Litlasjó

Bleikja veiddist í net í Litlasjó í byrjun netaveiðitímans í ágústlok. Um var að ræða 56 cm og 2420 gr hrygnu.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa rannsakað fiskinn. Bleikjan var hrognafull og hefði líklega hrygnt í haust ef hún hefði lifað. Líklega hefur hún hrygnt einu sinni áður (haustið 2018).
Bleikjan reyndist 8-10 ára, líklegasti aldur er 9 ár. 
Hreistur og kvarnir báru þess merki að hún gæti verið af náttúrulegum uppruna eða úr eldi sem smátt seiði.
Þetta byggir á því að hún var smá eftir eins árs vöxt (8 cm samkvæmt bakreikningi á hreistri).
Verið er að skoða það hvort komast megi nær um uppruna bleikjunnar með erfðarannsóknum. 

Vonandi er um einstakt tilvik að ræða. Ein bleikja gerir engan skaða. Í Litlasjó er mikið veiðiálag bæði í stangveiði og netaveiði og því líklegt að bleikjur hefðu komið fram í veiðinni fyrr ef um eitthvað magn væri að ræða. Við vonum það besta.

Stærsti fiskur sumarsins

Þann 17. ágúst í norðan roki og sandbyl, veiddi Friðrik Þórarinsson stærsta fisk sumarsins í Veiðivötnum. Fiskurinn fékkst á beitu í Grænavatni. Hann vóg 8,03 kg (16,06 pd), var 74 cm að lengd og 79 cm að ummáli. Þetta er annar þyngsti fiskur sem veiðst hefur á stöng í Veiðivötnum. Til hamingju Friðrik!