Bleikja í Litlasjó

Bleikja veiddist í net í Litlasjó í byrjun netaveiðitímans í ágústlok. Um var að ræða 56 cm og 2420 gr hrygnu.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa rannsakað fiskinn. Bleikjan var hrognafull og hefði líklega hrygnt í haust ef hún hefði lifað. Líklega hefur hún hrygnt einu sinni áður (haustið 2018).
Bleikjan reyndist 8-10 ára, líklegasti aldur er 9 ár. 
Hreistur og kvarnir báru þess merki að hún gæti verið af náttúrulegum uppruna eða úr eldi sem smátt seiði.
Þetta byggir á því að hún var smá eftir eins árs vöxt (8 cm samkvæmt bakreikningi á hreistri).
Verið er að skoða það hvort komast megi nær um uppruna bleikjunnar með erfðarannsóknum. 

Vonandi er um einstakt tilvik að ræða. Ein bleikja gerir engan skaða. Í Litlasjó er mikið veiðiálag bæði í stangveiði og netaveiði og því líklegt að bleikjur hefðu komið fram í veiðinni fyrr ef um eitthvað magn væri að ræða. Við vonum það besta.