[Til baka]

Fréttir af veiði í Veiðivötnum sumarið 2011

Sunnudaginn 18. september lauk veiðitímabilinu í Veiðivötnum. Á þessu veiðiári var fyrirkomulagi veiðanna breytt frá því sem áður var. Stangveiðitíminn var frá 17. júní til 24. ágúst, viku lengur en áður, tíu vikur í stað níu vikna. Netatíminn styttist, var frá 26. ágúst til 18. september. Á stangveiðitímanum veiddust 21240 fiskar sem er talsvert minni afli en undanfarin þrjú ár, en svipað og sumarið 2007. Sumarið 2011 telst vera fimmta besta stangveiðiár í Veiðivötnum frá upphafi (sjá samanburð). Líklega má kenna kuldatíð framan af sumri um lægri aflatölur að þessu sinni, en undanfarin sumur hafa verið sérlega hagstæð lífríkinu í Veiðivötnum og aflabrögð eftir því.

Á netatímanum komu 5997 fiskar í netin en 829 fiskar fengust á stöng. Heildarveiðin í Veiðivötnum var 28066 fiskar. Árið 2011 er fjórða besta veiðiárið frá upphafi skráninga. (sjá samanburð).

Eins og oft áður var mestur afli úr Litlasjó. Þar veiddust 6514 fiskar á stöng og 1238 fiskar komu í netin. Næst á eftir var Stóra Fossvatn með 2552 fiska allt á stöng. Bæði þessi vötn eru hrein urriðavötn. Langavatn var í þriðja sæti með 2392 fiska, mest bleikjur. Yfir 1000 fiskar fengust úr Snjóölduvatni, Kvíslarvatni, Nýjavatni og í Hraunvötnum.
Meðalþyngd allra fiska á stangveiðitímanum var 1,79 pd sem er mjög gott. Fara þarf mörg ár aftur í tímann til að finna álíka meðalþyngd. Hæst var meðalþyngdin í Ónefndavatni, 3,58 pd. og úr Grænavatni, 3,18 pd. og þar veiddist einnig þyngsti fiskurinn, 12,6 pd. í síðustu vikunni. Meðalþyngd í Litlasjó var 2,82 pd.

Undanfarin ár hefur bleikjan verið að sækja á í Veiðivötnum. Skyggnisvatn, Langavatn, Eskivatn, Kvíslarvatn, Nýjavatn og Tjaldvatn eru ofsetin af smábleikju en í Snjóölduvatni, Krókspolli og Breiðavatni má enn fá góðar bleikjur í bland við urriða. Sumarið 2011 veiddust 13782 urriðar (65%) og 7458 bleikjur (35%) á stangveiðitímanum. Þetta er svipað hlutfall og undanfarin 2-3 ár (sjá samanburð).

Heildarfjöldi og meðalþyngd á stangveiðitímanum sumarið 2011 - tafla
Heildarfjöldi og meðalþyngd á stöng á netaveiðitímanum haustið 2011 - tafla

Þróun stangveiðinnar í hverri viku sumarið 2011 - tafla

Samanburður á stangveiði á milli vikna og ára.

Heildarfjöldi og meðalþyngd fiska sem veiddust í net haustið 2011 - tafla

Höfundur og umsjónarmaður: Örn Óskarsson / Vefslóð: www.veidivotn.is